Skip to main content

Fréttir

Nýtt rit er komið út: Mirrors of Virtue

 

Út er komin bókin Mirrors of virtue: Manuscript and print in late pre-modern Iceland. Ritstjórar eru Margrét Eggertsdóttir og Matthew James Driscoll.

Ritið kemur út í Kaupmannahöfn í ritröðinni Opuscula (BIBLIOTHECA ARNAMAGNÆANA XLIX. OPUSCULA XV).

Útgáfan er nýjung að því leyti að þar birtast tíu greinar um sama efni, þ.e. handrit og prentaðar bækur á Íslandi á tímabilinu frá því að prentverkið kom til landsins á 16. öld og þar til ríkisútvarp tók til starf í byrjun 20. aldar. Allan þennan tíma var haldið áfram að skrifa handrit um leið og bækur voru prentaðar. Þessir tveir miðlar, handrit og prentverk, héldust í hendur og þótt sumt efni varðveittist frekar í handritum en annað væri prentað skaraðist það á ýmsan hátt.

Höfundarnir byggja greinar sínar á nýjum viðhorfum innan bókmenntarannsókna, texta- og menningarfræða þar sem athyglinni er beint að efnislegri umgjörð textans og hugað að félagslegu, sögulegu og menningarlegu samhengi textasköpunar, viðtökum og dreifingu.

Titill bókarinnar, Mirrors of virtue (Dyggðaspeglar), vísar ekki aðeins til hinnar vinsælu bókmenntagreinar sem kennd er við spegla á síðmiðöldum og árnýöld og átti að hvetja lesendur til góðrar hegðunar – en nokkuð er fjallað um slík verk í ritinu – heldur einnig þeirrar hugmyndar að bæði handrit og prentaðar bækur geti endurspeglað dyggðir í víðari merkingu.

Ritstjórar Mirrors of virtue eru þau Margrét Eggertsdóttir og Matthew James Driscoll.

Sum handritin sem fjallað er um voru augljóslega gerð í þeim tilgangi að hvetja lesendur til dyggðugs lífernis en dyggðir koma einnig við sögu í annars konar handritum sem einkum voru ætluð til skemmtunar og afþreyingar. Handritin endurspegla líka elju skrifaranna sem lögðu mikið á sig til að varðveita ekki aðeins það efni sem þeir skrifuðu upp heldur einnig sjálfa hefðina; það að skrifa handrit og lesa upp úr þeim – um það leyti sem fjaraði undan handritamenningunni vegna nýrra miðla bókmennta, dreifingar þeirra og viðtöku.

 

Hér má lesa frétt um útgáfuna á vef Árnasafns í Kaupmannahöfn.