Skip to main content

Fréttir

Nýtt ráðstefnurit um orðabækur og orðabókafræði

Vorið 2007 var haldin á Akureyri norræn ráðstefna um orðbókafræði – 9. Konference om leksikografi i Norden – á vegum norræna orðabókafræðifélagsins, NFL, og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Nú er komið út ráðstefnurit með greinum sem byggjast á fyrirlestrum af þinginu, alls 37 greinar eftir rúmlega 40 norræna orðabókafræðinga og viðfangsefnin eru fjölbreytileg. Margar greinar fjalla um norrænar orðabækur af ýmsu tagi, bæði nýlegar orðabækur og verk sem eru í smíðum, t.d. tvímála orðabækur, réttritunarorðabækur, mállýskuorðabækur og ferðamannaorðabækur. Einnig eru í ritinu greinar um tiltekin viðfangsefni í orðabókafræðum og orðabókagerð, s.s. meðferð fastra orðasambanda, og um orðabókanotkun og orðabókanotendur. Loks er ítarleg atriðisorðaskrá í ritinu sem er um 500 síður að stærð.

Ritið er það tíunda í ritröð félagsins, Skrifter udgivet af Nordisk Forening for Leksikografi, og að þessu sinni er það gefið út í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Språkrådet i Norge. Ritstjórar eru Ásta Svavarsdóttir, Guðrún Kvaran, Gunnlaugur Ingólfsson og Jón Hilmar Jónsson.

Ráðstefnuritið er til sölu í Bóksölu stúdenta.

Nordiske Studier i Leksikografi 9
Rapport fra konference om leksikografi i Norden
Akureyri 22.- 26. maj 2007