Íðorðasafn í jarðeðlisfræði er núna komið inn í Íðorðabankann. Aðgengilegt tvímála íðorðasafn (íslenskt-enskt) í jarðeðlisfræði er mjög mikilvægt fyrir nemendur, kennara og fagaðila í greininni. Það er stefna Háskóla Íslands að grunnnám fari fram á íslensku en framhaldsnám á ensku eftir því sem við á. Staðan er hins vegar sú að mikill hluti grunnnáms í jarðeðlisfræði fer fram á ensku. Sífellt fleiri akademískir starfsmenn háskólanna eru af erlendu bergi brotnir og þurfa nauðsynlega að hafa íðorðasöfn við höndina við vinnu sína. Íðorðasafnið er einnig mikilvægt fyrir almenning og fréttamenn á Íslandi vegna endurtekinna náttúruhamfara. Nauðsynlegt er að geta tjáð sig um þessi náttúrufyrirbrigði á íslensku máli.
Markmið verkefnisins var að taka saman íðorðasafn í jarðeðlisfræði og gera það aðgengilegt í Íðorðabankanum. Fyrirmynd að safninu er orðasafnið Íðorð og hugtök í skjálftafræði og tektóník sem Páll Einarsson hefur tekið saman fyrir nemendur sína síðustu áratugina. Hann hefur jafnframt útvíkkað orðasafnið og bætt við íðorðum í jarðsegulfræðum, þyngdarmælingum og öðrum íðorðum sem koma fyrir í fyrstu námskeiðum í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, til að mynda Almennri jarðeðlisfræði og Jarðeðlisfræðilegri könnun.
Verkefnið var unnið í samstarfi við Ágústu Þorbergsdóttur, ritstjóra Íðorðabanka Árnastofnunar, sem veitti leiðsögn um íðorðastarf og gerð íðorðasafna. Alls hafa verið færð 358 hugtök úr jarðeðlisfræði inn í Íðorðabankann og þar af eru um 230 hugtök úr fyrrnefndu orðasafni Páls Einarssonar og fylgja þeim íslenskar skilgreiningar. Að auki hafa verið skráð 125 ný hugtök inn í Íðorðabankann. Verkefnið er styrkt af styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur.