Skip to main content

Fréttir

Nýtt fólk í stjórn vinafélags Árnastofnunar

Stjórn vinafélagsins skipa: Þórarinn Eldjárn, Pétur Blöndal, Kristján Kristjánsson, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, Sigurður Svavarsson formaður, Sjöfn Kristjánsdóttir, Marteinn Breki Helgason.

Aðalfundur vinafélags Árnastofnunar var haldinn í Norræna húsinu síðla árs 2017.

Sigurður Svavarsson, formaður vinafélagsins, flutti þar skýrslu um störf stjórnar frá stofnun félagsins á vordögum 2016.

Helst bar til tíðinda að nýtt fólk var kosið í stjórn í stað þeirra Nönnu Rögnvaldardóttur og Þórunnar Sigurðardóttur sem er þakkað fyrir sitt framlag til vinafélagsins. Pétur Blöndal framkvæmdastjóri og Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir prestur tóku sæti í stjórninni. Eins heimilaði fundurinn stjórninni að innheimta félagsgjöld að upphæð 2.500 krónur. Gjöldin yrðu nýtt til að standa straum af kostnaði við viðburði og fræðslu á vegum félagsins.

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar samþykkti Sigurður að gegna áfram formennsku. Fyrsta áherslumál vinafélags Árnastofnunar var forvarsla Flateyjarbókar en það verkefni hefur nú verið fjármagnað af hinu opinbera. Vinafélagið sér þó ekki fram á annað en að mörg önnur brýn verkefni á sviði íslenskra fræða bíði. Hægt er að gerast félagi á heimasíðu félagsins: vinirarnastofnunar.is.