Skip to main content

Fréttir

Nýsköpun - íslensk vísindi

Nú er nýlokið gerð 12 þátta röð nýrra sjónvarpsþátta um vísindi og fræði á Íslandi. Hver þáttur er tæpar 30 mín. að lengd og inniheldur þrjú ólík viðfangsefni. Þannig kynnast áhorfendur á öllum aldri 36 áhugaverðum verkefnum úr flestum geirum vísinda og tækni en í þeim efnum er mikil gróska. Hver þáttarhluti byggir á líflegu myndefni og ferskum efnistökum, orðum vísindamannanna sjálfra og þulartexta. Þættirnir eru unnir fyrir RÚV í samvinnu við fjölmargar vísindastofnanir, háskóla, félög og rannsóknarsjóði.

Konungsbók er eitt þeirra viðfangsefna sem fjallað verður um í þáttunum. Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er unnið að rafrænni útgáfu Konungsbókar Eddukvæða. 

Umsjónarmaður með þáttunum og kynnir er Ari Trausti Guðmundsson rithöfundur og jarðvísindamaður sem annast hefur fjölda útvarps- og sjónvarpsþátta síðan 1980. Hann hlaut viðurkenningu Rannís fyrir kynningu á vísindum 2008. Framleiðandi er Lífsmynd en stjórnandi Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmaður. Hann á að baki aldarfjórðung í gerð sjónvarpsþátta, heimildarmynda og kvikmynda. Tveir reyndir myndgerðarmenn koma líka við sögu: Jón S. Kjartansson sá um hljóðvinnslu og Jón Axel Egilsson um grafíska vinnu.

Fyrsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 1. október kl. 21.25 og eftir það í viku hverri fram að jólum. Sjá nánar á www. ruv.is

Styrktaraðilar eru: Rannís, Háskólinn í Reykjavík, Tækniþróunarsjóður, Rannsóknasjóður, Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Lýðheilsustöð, Háskólinn á Hólum, Samorka, Háskólinn á Akureyri, Landgræðslan, Siglingastofnun, Iðnaðarráðuneytið, Hafrannsóknastofnun, KEA, Hjartavernd og Krabbameinsfélag Íslands auk annarra sem lagt hafa lið.