Sólmundur Már Jónsson hóf störf í vikunni sem verkefnisstjóri flutninga og breytinga Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Flutt verður í Hús íslenskunnar árið 2023 en að mörgu er að hyggja við flutning starfsfólks, handrita, bókasafns, gagna og búnaðar. Með nýju húsnæði mun öll aðstaða til rannsókna, sýningarhalds og miðlunar batna stórkostlega. Jafnframt mun starfsemi stofnunarinnar sameinast á einn stað sem býður upp á mikil tækifæri en hún hefur verið í Árnagarði, á Laugavegi og Þingholtsstræti.
Sólmundur Már er með MS-gráðu í mannauðsstjórnun (2021) og viðskiptafræðimenntun (cand.oecon, 1990) frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað um árabil sem stjórnandi í mannauðsmálum, fjármálum og rekstri hjá ýmsum stofnunum. Hann hefur mikla reynslu í breytingastjórnun, stefnumótun, sameiningum stofnana og verkefnisstjórnun. Hann gegndi störfum aðstoðarforstjóra rekstrar, fjármálastjóra og mannauðsstjóra 2013–2019 hjá Hafrannsóknastofnun og var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landhelgisgæslunnar 2005–2013. Hann hefur unnið að mörgum fasteignaverkefnum og fór með verkefnastjórn 2016–2019 fyrir hönd einnar stærstu rannsóknastofnunar landsins, Hafrannsóknastofnunar, vegna byggingar nýrra höfuðstöðva stofnunarinnar í Hafnarfirði.
Við bjóðum Sólmund Má velkominn til starfa.