Skip to main content

Fréttir

Nýr rannsóknarlektor á menningarsviði

Hjalti Snær Ægisson hóf störf sem rannsóknarlektor á menningarsviði stofnunarinnar 2. janúar 2025. Rannsóknir hans beinast einkum að norrænum miðaldabókmenntum, fornmenntum og þýðingum.

Hjalti Snær lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2019. Í doktorsritgerð sinni fjallaði hann um latnesk ævintýri í íslenskum þýðingum frá 14. og 15. öld. Árið 2022 kom út Sýnisbók þess að Ísland er ekki barbaraland, bókmenntasögulegt rit á latínu eftir Jón Thorkillius (1697–1759) Skálholtsrektor ásamt íslenskri þýðingu Sigurðar Péturssonar (1944–2020), í umsjón Hjalta Snæs. Hann starfaði sem nýdoktor við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn frá 2021 til 2024 og undirbjó þar nýjar útgáfur á nokkrum fornaldarverkum í íslenskum þýðingum. Fyrsti afrakstur þess verkefnis var samræðan Alkíbíades eftir Platon sem kom út ásamt inngangi og skýringum haustið 2024. Næsta útgáfa er verkið Minningar um Sókrates eftir Xenófon sem er væntanleg vorið 2025. Áður starfaði Hjalti Snær sem stundakennari í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. 

Árnastofnun býður Hjalta Snæ velkominn til starfa.