Skip to main content

Fréttir

Nýr meðlimur í Akademíu Gústafs Adolfs

 

Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar er nýr meðlimur í hinni Konunglegu Akademíu Gustafs Adólfs (Kungl. Gustav Adolfs Akademien för svensk folkkultur) sem var stofnuð árið 1932, á þrjú hundruðustu ártíð Gustaf 2. Adólfs Svíakonungs (1611-1632) hinn 6. nóvember.

Akademían stendur fyrir fræðilegum ráðstefnum og útgáfum og stýrir margvíslegum sjóðum sem veita viðurkenningar, og styrkja hvers konar fræðistörf á sviði sænskra og norrænna fræða. Margir Íslendingar hafa hlotið viðurkenningar frá Akademíunni, nú í ár fær Aðalheiður Guðmundsdóttir til dæmis verðlaun úr minningarsjóði Dag Strömbäck fyrir þjóðfræðarannsóknir sínar. Akademían velur sjálf meðlimi sína sem eru nú 218, og mega 30 þeirra vera utan Svíþjóðar. Nokkrir Íslendingar eru þar á meðal, forstöðumenn Árnastofnunar hafa jafnan setið þar og ýmsir erlendir fræðimenn sem koma reglulega til fræðistarfa á stofnuninni. Hátíðarfundir eru haldnir árlega á ártíð Gustaf Adólfs í Uppsalahöll þar sem viðurkenningar Akademíunnar eru veittar.

Meðfylgjandi mynd var tekin er Gísli tók við viðurkenningu Akademíunnar þann 6. nóvember 2004 fyrir rannsóknir „á munnlegri hefð að baki íslenskra fornsagna“. Á myndinni afhendir forsetinn Nils-Arvid Bringéus viðurkenningarskjalið og ávísunina og ritarinn Lennart Elmevik stendur í púltinu.