Íslenskum ritreglum hefur nú verið breytt í fyrsta sinn síðan 1977.
Jóhannes B. Sigtryggsson, ritari Íslenskrar málnefndar, segir að á vegum nefndarinnar hafi starfað vinnuhópar árin 2009–2015 við að endurskoða íslenskar ritreglur. Hann segir að í nýju reglunum felist ekki neinar verulegar breytingar á íslenskri stafsetningu heldur er fyrst og fremst um að ræða breytingar á framsetningu reglnanna og fjölgun dæma til að styðja þær.
Íslensk málnefnd skilaði drögum að nýjum ritreglum til mennta- og menningarmálaráðuneytis 5. apríl 2016. Ráðuneytið gaf svo út ritreglurnar 6. júní 2016.
Í kjölfar fréttar á Rúv um þær breytingar sem verða með nýjum reglum hefur sprottið upp umræða um ritreglurnar í öðrum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Að sögn Ármanns Jakobssonar, varaformanns Íslenskrar málnefndar, fagnar nefndin allri umræðu um þessar ritreglur og um tungumálið yfirleitt; hún sé til marks um lifandi áhuga á tungumálinu.