Skip to main content

Fréttir

Nýjar leiðbeiningar handa sveitarfélögum um örnefnamál

Sífellt er þörf fyrir ný örnefni á Íslandi. Reglulega verða landsumbrot sem breyta landslagi þannig að kallar á ný örnefni. Nýleg dæmi eru Holuhraun og berghlaupið í Hítardal ásamt stöðuvatninu sem það myndaði: Skriðan og Bakkavatn. Einnig gerast stöðugt hægfara breytingar á landslagi, til dæmis hefur hop skriðjökla á undanförnum árum leitt til myndunar nýrra lóna sem hefur þurft að nefna. Þetta eru nöfn á náttúrufyrirbærum, en uppbygging mannvirkja í bæjum og sveitum kallar líka á ný nöfn á til dæmis götum og torgum, býlum og landeignum, og þetta eru líka örnefni. Þessi síðastnefndu örnefni eru notuð til að skrá svonefnd staðföng, en það er hugtak sem nær yfir það sem í daglegu tali er kallað heimilisföng, en hefur einnig víðari skírskotun (Nánari upplýsingar um hugtakið staðfang má finna í Handbók um skráningu staðfanga sem Þjóðskrá Íslands hefur gefið út).

Ný lög um örnefni tóku gildi snemma árs 2015 og er í þeim meðal annars kveðið á um að ný örnefni skuli vera í samræmi við staðhætti og íslenska örnefnahefð og einnig í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Lögin kveða einnig á um veigamikið hlutverk sveitarfélaga bæði við að búa til og skrá ný örnefni. Að sumu leyti er hlutverk þeirra stærra en var fyrir setningu nýju laganna. Sem dæmi eru umsóknir um ný og breytt nöfn á býlum ekki lengur afgreiddar af Örnefnanefnd heldur af viðkomandi sveitarfélagi. Áður lagði Örnefnanefnd mat á það meðal annars hvort tillögur að nýjum bæjanöfnum samrýmdust íslenskri örnefnahefð og samþykkti þær eða hafnaði þeim eftir atvikum. Lögin kveða eftir sem áður á um að ný nöfn skuli samrýmast íslenskum nafngiftahefðum (og uppfylla önnur skilyrði laga), en nú eiga sveitarfélögin að ganga úr skugga um að svo sé áður en ný örnefni eru skráð.

Við skráningu nýrra örnefna þarf þess vegna að huga að mörgu og mikilvægt er að sveitarfélög hafi sem greiðastan aðgang að leiðbeiningum um örnefnamál. Liður í því eru nýjar leiðbeiningar: Örnefni — Leiðbeiningar handa sveitarfélögum um nafngiftir býla, gatna, sveitarfélaga og náttúrufyrirbæra sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landmælingar Íslands og Örnefnanefnd hafa nú gefið út.

Í leiðbeiningunum er meðal annars gerð grein fyrir því helsta sem hafa þarf í huga til þess að ný örnefni samræmist markmiðum örnefnalaga um viðhald og varðveislu örnefna og örnefnahefða. Þar er einnig farið yfir reglur sem gilda um samráð við Örnefnanefnd í ákveðnum tegundum mála og minnt á öryggissjónarmið sem taka þarf tillit til við skráningu staðfanga, svo eitthvað sé nefnt.

Leiðbeiningarnar eru sérstaklega ætlaðar fulltrúum sveitarfélaga sem sjá um skráningu staðfanga á vegum þeirra, en einnig þeim sem gera tillögur að nýjum örnefnum: nöfnum á býlum, götum, sveitarfélögum og náttúrufyrirbærum. Þær eru þáttur í því að aðstoða sveitarfélög við að viðhafa góða starfshætti í örnefnamálum.

Í bæklingnum er einnig sagt frá því að hægt er að sækja ráðgjöf um skráningu staðfanga og um örnefnamál almennt til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM). Hún hefur það hlutverk að veita almenningi og stofnunum ráðgjöf um örnefni, t.d. um nýjar nafngftir og skráningu örnefna. Samkvæmt lögum eru staðföng (t.d. bæjanöfn og götunöfn) skilgreind sem tegund örnefna og þau falla því undir ákvæði laga um örnefni.

Ráðgjafarhlutverki SÁM á sviði örnefnamála er sinnt á nafnfræðisviði stofnunarinnar sem er arftaki Örnefnastofnunar Íslands. Fulltrúar sveitarfélaga sem starfa við að skrá staðföng geta haft samband við starfsmenn sviðsins þegar vafi leikur á því að nafn, sem nota á við skráningu staðfangs, samræmist góðum háttum í örnefnamálum. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu sviðsins: https://www.arnastofnun.is/is/nafnfraedi

Leiðbeiningarnar hafa þegar verið sendar til allra 72 sveitarfélaga á landinu. Þær er einnig hægt að nálgast á rafrænu formi á heimasíðu Örnefnanefndar: www.örnefnanefnd.is