Þann 21. október var 150 ára afmæli Nýja-Íslands í Kanada. Ýmsir viðburðir hafa verið haldnir í ár til þess að fagna þessum merka áfanga en þar má nefna vel sótt málþing á vegum Árnastofnunar 3. október síðastliðinn.
Við sama tækifæri fékk vinnuherbergi á bókasafninu í Eddu nafnið Manitóba en það hýsir hluta af bókasafni Ragnars H. Ragnar sem safnaði íslenskum bókum og tímaritum frá Vesturheimi. Eins og fram kom í máli Helgu Hilmisdóttur rannsóknarprófessors kemur nafnið Manitóba úr frumbyggjamáli. Samskipti vesturfara við frumbyggja Nýja-Íslands voru viðfangsefni Hildar Sigurbergsdóttur sem var meðal tíu fyrirlesara á málþinginu.
Auk bókasafns Ragnars H. Ragnar geymir Árnastofnun margvísleg gögn um sögu vesturfara sem og þróun íslensku vestanhafs. Fyrir nokkrum árum kom út bókin Sögur úr Vesturheimi en í henni birtast orðréttar uppskriftir af frásögnum sem hjónin Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir söfnuðu á Nýja-Íslandi og víðar á ferðum sínum veturinn 1972–1973. Gísli Sigurðsson bjó þetta efni til útgáfu en einnig má hlusta á úrval sagna á vefnum.
Árnastofnun hýsir einnig gagnagrunninn Handrit íslenskra vesturfara sem Katelin Marit Parsons ritstýrir. Þar má skoða stafrænar myndir af yfir 1.700 handritum, bókum og bréfum á íslensku sem varðveist hafa í Vesturheimi.
Á vefritinu Mannamál.is má lesa erindi Helgu Hilmisdóttur um listina að krydda ensku með íslensku.