Snorrastyrkþegar
Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.
Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2023 voru auglýstir í júlí sl. með umsóknarfresti til 1. desember.
Þeir sem hlutu styrk að þessu sinni:
Dr. Caitlin Ellis er O’Donovan-styrkþegi hjá deild keltneskra fræða við Dublin Institute of Advanced Studies. Hún mun vinna að þróun verkefnis um bernsku og unglingsár, annars vegar í íslenskum miðaldabókmenntum og hins vegar í sögu víkingaaldar, með því að rannsaka dróttkvæði og aðrar miðaldabókmenntir sem og lagatexta. Verkefni hennar fjallar fyrst og fremst um ungt fólk í hernaðarlegu og pólitísku samhengi.
Dr. Marina Voinova er þátttakandi í námsbraut í norrænum og forníslenskum fræðum við Gautaborgarháskóla. Hún hefur þýtt eddukvæði á úkraínsku og verkefni hennar nú er að rannsaka Snorra-Eddu og þýða hana á úkraínsku.
Dr. Lukas Rösli er frá Humboldt-háskóla í Berlín. Hann ætlar að rannsaka atriði eða „texta“ sem eru til hliðar eða utan við aðaltexta („paratextuality“) í íslenskum miðaldaprósahandritum. Sérstaklega ætlar hann rannsaka möguleika slíkra „texta“ á að búa til menningarlegt minni með tilliti til þeirra samfelldu texta og frásagna sem þeir fylgja.
Styrkþegar í íslensku sem öðru máli
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsýslu með styrkjum menningar- og viðskiptaráðuneytis til erlendra stúdenta til íslenskunáms við Háskóla Íslands.
Stofnuninni bárust alls 32 umsóknir um styrkina fyrir skólaárið 2023–2024 og voru veittir 12 styrkir til nemenda frá 10 löndum.
Nemendurnir hafa allir lagt stund á íslensku með einum eða öðrum hætti. Sumir hafa lært íslensku við háskólastofnanir sem íslenska ríkið styður við erlendis en aðrir hafa stundað sjálfsnám á vefsvæðinu Icelandic Online.
Nýir styrkþegar:
Anne Malina Hannemann – Þýskaland
Genadii Snedkov – Rússland
Laure-Héléne Dardelay - Frakkland
Mashiho Kaneko – Japan
Rick Van Staten – Holland
Framhaldsstyrkþegar:
Aleksander Juszczynski – Pólland
Alix Houllier – Frakkland
Bingjie Mao – Kína
Erik Mahler – Bandaríkin
Gregory Andreev – Króatía
Henirette Schoeneck – Þýskaland
Samuel Wright – Bretland