Þórunn Sigurðardóttir verkefnisstjóri á stofnuninni fann á dögunum kvæði eftir Hallgrím Pétursson í handriti í Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Talið var að flest allt eftir Hallgrím væri komið fram og þykja þetta því mikil tíðindi. Þórunn segir að þegar hún hafi lesið ljóðið hafi hún sannfærst um að það væri réttilega eignað Hallgrími. Um er að ræða erfikvæði um Vigfús Gíslason sýslumann á Stórólfshvoli sem lést árið 1647. Kvæðið er nafnakvæði (griplur) og mynda upphafsstafir vísnanna nafnið „Vigfús“ en lokastafir fimm fyrstu vísnanna „Gísla“ og aftasta orð sjöttu vísu „son“.
Myndin er úr handriti í Ihreska handskriftssamlingen
i Uppsala universitetsbibliotek, Ihre 77.
Hans sonar Vigfúsar
1. Vel lifað hér í heimi nú
á helgum lífsins veg,
með hreinni iðran, ást og trú,
afgangsstund gleðileg,
hvörjum sem auðnast sæmdin sú
sælan þann prísa eg.
Ef rétt um þetta þenkir þú
þig mun það gleðja mjeG.
2. Innleiddir allir vorum vér
veröldu þessa í,
sá þó skilnaður settur er
sérhvörjum heims um bý:
‚þú skalt í burt nær þóknast mér‘,
þar við er enginn frí;
stórliga aungum undra ber
afgangur holdsins þvÍ.
3. Gras við má líkjast lífið manns,
lilju og fagra rós;
fölnað, forgengur fljótt til sanns
fremd, virðing, makt og hrós;
eins sem burt fellur blóminn lands,
blæs eða vindur á ljós,
dauðinn upp setur dapran krans,
dýrð hans er fallvalt glóS.
4. Forsjál Guðs börnin þenki það,
þekkjandi heimsins vél,
úr þessum gamla eymdarstað
ætíð sig búa vel;
þá kemur stundin andláts að,
ei má það granda hel,
því drottins Jesú dýra bað
dreift var á hjartans þeL.
5. Úr holdsins aumri hryggðarvist
héðan burt leiðast þá
í Guðs útvaldra gleði og lyst
glöggt öðlast himnum á.
Já, sinn brúðgumann Jesúm Krist
jafnan þar líta má;
unir sér vel og er aldrei tvist
englanna flokki hjÁ.
6. Sælar Guðs barna sálirnar
syngja hjá lambsins trón,
sem heimsins syndabyrðir bar,
burt tók og dauðans tjón;
holdið sem þeirra hreysi var
hvílist í dýrðarvon,
því bíður vor og væntir þar
Vigfús minn Gísla SON.