Skip to main content

Fréttir

Ný vefsíða Árnastofnunar opnuð 22. mars

Vefur Árnastofnunar

Árnastofnun kynnir nýja vefsíðu skömmu eftir jafndægur á vori 2019. Formleg kynning verður í Árnagarði í stofu 201 föstudaginn 22. mars kl. 15-16. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Undirbúningur að nýrri síðu sem leysir hina eldri af hólmi hófst þegar vorið 2016. Þá unnu nemendur í námskeiði um vefmiðlun hjá Sigurjóni Ólafssyni vefráðgjafa með vefnefnd stofnunarinnar, gerðu þarfagreiningu, notendakönnun og drög að kröfulýsingu. Að því samstarfi loknu tók hluti vefnefndar þátt í vinnustofum með Hugsmiðjunni. Fimm vefstofur fengu að endingu tækifæri til að bjóða í verkefnið vorið 2018. 1xinternet fékk verkefnið og hefur unnið náið allar götur síðan með vefnefnd og starfsmönnum í upplýsingatækni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Markmið nýju vefsíðunnar er að allar upplýsingar um fræðasvið og starfsemi stofnunarinnar verði auðfinnanlegar og aðgengilegar netnotendum. Vonir standa til að hægt verði að ráðast í endurbætur á enska hluta vefsins um leið og sá íslenski er opnaður.