Skip to main content

Fréttir

Ný útgáfa hjá Árnastofnun; Orð og tunga

Orð og tunga, kápumynd.


Út er komið 17. hefti tímaritsins Orðs og tungu (165 bls.).

Ritstjóri er Ari Páll Kristinsson.

Veturliði G. Óskarsson fjallar um orð í íslensku með þýskættaða forskeytinu be‑. Þau eru nær horfin úr notkun og sýnir Veturliði m.a. fram á að þau hafi alls ekki verið eins útbreidd á 19. öld og gagnrýni málhreinsunarmanna gæti gefið tilefni til að ætla.

Erla Erlendsdóttir segir frá spilaorðum í lomber sem borist hafa í íslensku úr spænsku. Greining Erlu er í senn fróðleg og með almennt gildi þar sem hún sýnir hvernig tökuorðaferli gengur fyrir sig við tilteknar aðstæður.

Marion Lerner veitir innsýn í hugarheim Fjölnismannsins Tómsar Sæmundssonar sem kynnti sér evrópska samtímamenningu á tveggja ára ferðalagi, að hætti ungra evrópskra yfirstéttarmanna, og leitaðist síðan við að miðla henni til landa sinna með íslensku orðfæri sem stundum náði skammt.

Mª Azucena Penas Ibáñez og Erla Erlendsdóttir sýna hvernig föst orðasambönd í spænsku annars vegar og íslensku hins vegar eiga rætur í sammannlegum tilfinningalegum og líkamlegum viðbrögðum við ólíkar aðstæður. Í greininni er byggt á hugmyndum og aðferðum hugrænna fræða.

Katrín Axelsdóttir skýrir hvernig á því stendur að orðið hjalt er í fleirtölu ýmist hjölt(in) eða hjöltu(n) og hún sýnir jafnframt hvernig merking þessa orðs hefur þrengst. M.a. er rakin, til samanburðar, merkingarþróun enska orðsins hilt.

Jón Friðrik Daðason og Kristín Bjarnadóttir lýsa orðhlutaskiptingartóli sem þau nefna Kvist. Kvistur skiptir samsettum orðum og sýnir stofnhlutatré fyrir þau. Í greininni er byggt jöfnum höndum á þekkingu og aðferðum í orðhlutafræði og í máltækni. Hér má sjá dæmi um góða uppskeru af samstarfi sérfræðinga á ólíkum sviðum.

Sigurður R. Helgason skýrir uppruna og merkingu óvenjulegra nafngifta: annars vegar er Gullbrá og Gullbrárfoss og hins vegar er Menglöð og Menglaðarfoss. Sigurður færir rök fyrir því að í báðum tilvikum sé vísað til gyðjunnar Freyju.

Heftinu lýkur með ritdómi: Baldur Sigurðsson fjallar um 3. útgáfu Íslenskrar samheitaorðabókar í ritstjórn Svavars Sigmundssonar.

Orð og tunga er ritrýnt tímarit sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur út árlega. Birtar eru greinar sem lúta að máli og málfræði. Sérstök áhersla er lögð á orðfræði, þ. á m. nafnfræði og íðorðafræði, og á orðabókafræði og orðabókagerð. Orð og tunga er að mestu á íslensku en einnig eru birtar greinar á ensku og Norðurlandamálum. Allar greinar í tímaritinu eru ritrýndar af tveimur ónefndum sérfræðingum auk ritstjóra.

Frestur til að skila greinarhandritum í 18. hefti (2016) er 1. ágúst 2015.