Skip to main content

Fréttir

Ný myndskreytt barnabók komin út með gömlum vísum


Barnabókin „Einu sinni átti ég gott“ er ný vísnabók auk tveggja geisladiska með hljóðritun vísnanna.

Efnið sem hér er gefið út á bók og tveimur geisladiskum er varðveitt á segulböndum í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er flutt af fólki alls staðar að af landinu. Hér er að finna allt frá bænum og fallegum vögguvísum til kveðskapar um Grýlu og hennar hyski ásamt öðrum barnafælum. Ekki er víst að sá kveðskapur hafi alltaf átt að hræða börnin til þess að vera góð, hann getur einnig vakið spennandi hrylling, sem krökkum þykir enn skemmtilegur. Og strákum og stelpum fyrri alda var, ekkert síður en nútímabörnum, dillað yfir ýmsum kveðlingum sem víkja að líkamlegum þörfum. Þannig vísur er hér einnig að finna en inn á milli eru síðan sungnar eða mæltar fram sérkennilegar þulur, skemmtilegir kveðlingar og stuttar sögur sem hægt er að hafa gaman af, auk vísna sem notaðar hafa verið til að kenna börnum og leika við þau.

Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur á Árnastofnun, hafði umsjón með útgáfunni, Halldór Baldursson myndskreytti bókina og um hljóðvinnslu sá Sigurður Rúnar Jónsson í Stemmu.

Bókin er til sölu í bóka- og hljómplötuverslunum. Smekkleysa sér um dreifingu.

Sigrún Sigvaldadóttir fékk 1. verðlaun Félags íslenskra teiknara fyrir hönnun á kápu bókarinnar