Skipt var um handrit á sýningunni Heimur í orðum þann 12. ágúst.
Þar ber sérstaklega að nefna Trektarbók Snorra-Eddu, en hún er nú á Íslandi í fyrsta skipti í 400 ár. Þetta handrit skrifaði Páll Jónsson í Þernuvík við Ísafjarðardjúp í lok 16. aldar eftir skinnbók frá 13. öld sem nú er glötuð.
Á 17. öld barst handritið til Kaupmannahafnar og var um hríð í eigu Ole Worm prófessors. Síðan komst bókin í hendur þýska fræðimannsins Christians Rave sem gaf hana Háskólabókasafninu í Utrecht árið 1643. Þar hefur handritið verið varðveitt alla tíð síðan.
Annar merkisgripur sem nú er til sýnis er Gráskinna, eitt elsta handrit Njáls sögu. Handritið er bundið í kápu úr selskinni og dregur nafn sitt af því. Það var skrifað í byrjun 14. aldar, einungis fáeinum áratugum eftir að Njála var sett saman.
Þessi handrit og mörg fleiri verða til sýnis þar til 9. nóvember næstkomandi.

