Norrænu íðorðadagarnir Nordterm 2015 voru haldnir í Reykjavík 9.–12. júní 2015 og tókust einstaklega vel. Málræktarsvið Árnastofnunar annaðist undirbúning þeirra í samvinnu við stjórnarnefnd Nordterm. Styrki veittu Nordplus, Clara Lachmanns Stiftelse og Letterstedtska Föreningen. Meginefni ráðstefnunnar var spurningin um ábyrgð á stjórnun íðorðastarfs (Forvaltning af fagsprog i samfundet: Hvem har ansvaret? Hvem tager ansvaret?).
Aðalfyrirlesari var dr. Klaus-Dirk Scmitz frá Fachhochschule Köln. Haldin voru 28 önnur erindi um efnið á ráðstefnunni. Í tengslum við ráðstefnuna var jafnframt haldinn aðalfundur Nordterm, stjórnarfundir, vinnunefndafundir, námskeið og vinnustofa. Þátttakendur fóru einnig í ferðalag í Borgarfjörð. Í Reykholti var snæddur hátíðarkvöldverður og sr. Geir Waage sagði frá Snorra Sturlusyni.