Skip to main content

Fréttir

Norrænt sumarnámskeið í íslensku

Mánudaginn 7. júní, hófst fjögurra vikna norrænt sumarnámskeið í íslensku í Háskóla Íslands. Námskeiðið er ætlað háskólastúdentum í norrænum fræðum sem stunda nám á Norðurlöndum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gengst fyrir námskeiðinu í samvinnu við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og annast skipulagningu þess. Norræna ráðherranefndin hefur veitt styrk til að unnt sé að halda námskeiðið.

Sumarnemendur á bæjarrölti

Norræn sumarnámskeið í íslensku hafa verið haldin við Háskóla Íslands síðan 1959. Í upphafi var efnt til þeirra á þriggja ára fresti, þá annað hvert ár og síðan í byrjun 10. áratugarins á hverju ári. Þátttakendur hafa að jafnaði verið um þrjátíu. Íslenskum stúdentum stendur jafnframt til boða að sækja sambærileg námskeið í öðrum Norðurlandamálum en íslensku annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta er í þriðja skipti sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast skipulagningu námskeiðsins. Þátttakendur eru þrjátíu og tveir að þessu sinni, átta frá Danmörku, sjö frá Finnlandi, átta frá Noregi, sjö frá Svíþjóð og tveir frá Færeyjum. Þeim er skipt í tvo hópa í íslenskunáminu eftir forkunnáttu. Auk þess að nema íslenskt mál leggja stúdentarnir stund á íslenskar samtímabókmenntir. Þá gefst þeim tækifæri til að hlýða á fyrirlestur um sögu Íslendinga, heimsækja menningarstofnanir og skoða sig um á sögustöðum.

Þetta er eitt námskeiðið fyrir erlenda námsmenn af fjórum sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipuleggur á þessu sumri. Hinn 14. júní hófst tíu daga íslenskunámskeið fyrir vestur-íslensk ungmenni sem dveljast hér á landi í sumar á vegum Snorraverkefnisins svonefnda. Mánudaginn 26. maí byrjaði í Minneapolis í Bandaríkjunum sex vikna námskeið fyrir bandaríska stúdenta sem stofnunin stendur að í samvinnu við Minnesotaháskóla. Síðari helmingur námskeiðsins fer fram hér á landi og komu stúdentarnir laugardaginn 12. júní. Hinn 5. júlí hefst árlegt fjögurra vikna alþjóðlegt sumarnámskeið í Háskóla Íslands. Alls taka tæplega hundrað nemar þátt í þessum fjórum námskeiðum.

Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um lönd, ekki síst í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Með ári hverju berast fleiri umsóknir um hvers konar íslenskunám fyrir útlendinga hér á landi. Nútímaíslenska er einnig kennd við marga erlenda háskóla. Minna má á að nú starfa sextán íslenskulektorar erlendis með styrk íslenskra stjórnvalda, fjórtán í níu Evrópulöndum, einn í Kanada og einn í Kína. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsjón með þessari kennslu.