Skip to main content

Fréttir

Norræn málþing í Delhi og Hyderabad

Dagana 2.– 5. mars skipuleggur Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis, sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, í samstarfi við Nordic Centre in India, málþing í Delhi og Hyderabad á Indlandi. Yfirskrift málþinganna er: „Nordic perspectives – a common ground for change“. Þar verður fjallað um sögu norræns samstarfs, velferðarríkið, lýðræði og jafnréttismál, umhverfismál og tungumálastefnu Norðurlanda. Fyrirlesarar verða Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við Háskóla Íslands, Sven E. O. Hort, prófessor við Linnaeus háskólann í Växjö í Svíþjóð, Hugo Stokke, fræðimaður við Chr. Michelsen stofnunina í Björgvin, Kirsten Worm, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, og Maisa Martin, prófessor við Jyväskylä háskóla í Finlandi.

Fyrsta málþingið fer fram við Jawaharlal Nehru háskólann í Delhi þriðjudaginn 2. mars nk. Annað málþingið verður við Hyderabad háskóla fimmtudaginn 4. mars. Loks verður málþing í India International Centre í Delhi föstudaginn 5. mars.

Danir fara nú með formennsku í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar og nefndum á vegum hennar. Formaður Samstarfsnefndar um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis er Nina Møller Andersen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla. Skrifstofa nefndarinnar er á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ritari hennar er Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor, stofustjóri á alþjóðasviði stofnunarinnar.