Íslenskusvið Árnastofnunar annast skipulagningu Nordkurs-námskeiðs í íslenskri tungu og menningu sem haldið er árlega í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Í ár var námskeiðið haldið 3.–27. júní og tóku 26 nemendur þátt í því. Nemendurnir komu frá ýmsum háskólum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Eftir fjórar vikur á námskeiðinu, sem samanstóð af 60 kennslustundum í íslenskri tungu, gafst nemendunum tækifæri til að hlýða á tíu fyrirlestra um náttúru Íslands, sögu og menningu landsins og um íslenskt samfélag.
Sumarnámskeið undir heitinu Nordkurs var fyrst haldið árið 1959 í Reykjavík og upp frá því þriðja hvert ár til ársins 1974 þegar byrjað var að halda það annað hvert ár. Árnastofnun sér nú árlega um skipulagningu sumarnámskeiða á vegum Nordkurs. Íslenskum háskólanemum gefst einnig tækifæri á að sækja Nordkurs-námskeið á Norðurlöndunum endurgjaldslaust.
Frekari upplýsingar um Nordkurs má nálgast á heimasíðu Nordkurs.