Skip to main content

Fréttir

Nemendum fjölgar á alþjóðlegri miðaldafræðibraut

Erlendir nemendur á alþjóðlegri miðaldabraut með forstöðumönnum námsins. Mynd/Guðmundur Hörður Guðmundsson.

 

Á þessu hausti hefja 29 meistaranemar nám á alþjóðlegu miðaldafræðibrautunum Medieval Icelandic Studies (MIS) og Viking and Medieval Norse Studes (VMN) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og er það talsverð fjölgun frá fyrra ári. Brautirnar eru báðar starfræktar í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en Viking and Medieval Norse Studies, sem sett var á fót haustið 2012, er jafnframt rekin í samstarfi við Árósaháskóla, Kaupmannahafnarháskóla og Óslóarháskóla.

Nemendurnir 29 koma frá tólf löndum en flestir þeirra, alls ellefu, koma frá Bandaríkjunum. Þrír koma frá Kanada og sömuleiðis þrír frá Þýskalandi, tveir frá Frakklandi, tveir frá Rússlandi og tveir frá Spáni og einn frá Ástralíu, Bretlandi, Líbanon, Púertó Ríkó, Ungverjalandi og Sviss. Nemendurnir hafa allir hlotið einhverja undirstöðuþjálfun í miðaldafræðum en annars er fræðilegur bakgrunnur þeirra æði fjölbreyttur, svo sem BA-gráða í miðaldafræði, norrænum málum og bókmenntum, ensku og enskum bókmenntum, enskum og frönskum bókmenntum, heimspeki, sagnfræði, mannfræði, málvísindum, þjóðfræði og listasögu og byggingarlist. Óhætt er því að fullyrða að í þessum hópi verði íslenskar og norrænar miðaldir rannsakaðar frá ólíkum hliðum.

Torfi H. Tulinius prófessor og Haraldur Bernharðsson dósent, báðir við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, veita brautunum forstöðu.