Skip to main content

Fréttir

Nafnfræðifélagið: Málþing 18. apríl

Höfðabrekka.

 

Í tilefni af því að Nafnfræðifélagið er 15 ára um þessar mundir verður haldið málþing laugardaginn 18. apríl  í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefst það kl. 13.15. Þar verða haldnir eftirtaldir þrír fyrirlestrar um nafnfræði:

Margrét Valmundsdóttir, verkefnisstjóri, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:

Fúli, Rani og Filpatótt. Geta örnefni lifað af ábúendaskipti?

Í erindinu verður sagt frá verkefni sem miðar að því að kanna hvernig vitneskja um örnefni hefur haldist á milli kynslóða þegar ábúendaskipti verða á jörð. Tekin var fyrir jörðin Móeiðarhvoll í Rangárvallasýslu og rætt við bæði fyrrverandi og núverandi ábúendur. Tekið var saman hvernig notkun örnefna og vitneskja um þau hefur breyst í gegnum árin og kannað hvort ný, og þá hvers kyns, örnefni hafi myndast á jörðinni. 

Jón Axel Harðarson, prófessor, Háskóla Íslands:

 Guðsheitið Yngvi og mannanöfn leidd af því

Í fyrirlestrinum verður rætt um hlutverk guðsins Yngva í germanskri goðafræði og stutt grein gerð fyrir uppruna og þróun nafns hans. Síðan verður fjallað um mannanöfn sem dregin eru af heiti guðsins og þau greind eftir samsetningargerð og merkingarhlutverki.

 Elín Ingibjörg Eyjólfsdóttir: 

Tungumál á vegvísum, tungumál sem vegvísir

Þessi fyrirlestur mun aðallega snúast um vegvísa á Bretlandseyjum og mikilvægi þess að vegvísar séu á ákveðnum tungumálum eftir landshlutum.
Hvað ræður hverju sinni og á hverjum stað fyrir sig með tilliti til sögu staðanna. Að lokum mun athyglinni verða beint að Íslandi og vegvísum þar
á bæ. 

Kaffiveitingar verða að loknu málþinginu.
Málþingið er ókeypis og öllum opið.

(Fréttatilkynning.)