Skip to main content

Fréttir

Myndir af Flateyjarbók og fleiri handritum

Flateyjarbók annað bindi. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Undanfarið ár hefur verið unnið að því að bæta ljósmyndum af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á vefinn handrit.is. Bæði er um að ræða myndir sem teknar voru fyrir nokkrum árum en einnig nýjar myndir.

Nú eru mörg merkustu og fallegustu handrit stofnunarinnar aðgengileg með þessum hætti og má nefna Konungsbók Eddukvæða (GKS 2365 4to), Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol.), aðalhandrit Stjórnar (AM 227 fol.), Konungsbók Snorra-Eddu (GKS 2367 4to), Möðruvallabók (AM 132 fol.) og Löngu-Eddu (AM 738 4to). Núna síðast hefur Flateyjarbók (GKS 1005 fol.) bæst í hópinn. Öll þessi handrit og mörg fleiri eru nú aðgengileg í heild sinni með myndum í hárri upplausn. Alls eru nú 420 handrit og skjöl stofnunarinnar aðgengileg í heild á myndrænu formi á vefnum. Vonast er til að myndir af um 200 í viðbót bætist við vefinn á næstu misserum.

Í samstarfi við systurstofnunina í Kaupmannahöfn hefur einnig verið bætt við myndum af handritum í danskri vörslu. Meðal íslenskra handrita má þar nefna Huldu (AM 66 fol.), Fríssbók (AM 45 fol.) og Placítusdrápu (AM 673 b 4to). Af forvitnilegum erlendum handritum má nefna AM 28 8vo, lögbók með rúnaletri, og AM 374 fol., myndskreytta handbók um umsátursvopn frá 15. öld.

 

Flateyjarbók. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.