Lagt hefur verið til að sundmenning Íslendinga fari á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf.
Unnið hefur verið að verkefninu í nokkurn tíma og nú hefur sundiðkun verið skráð á vefinn Lifandi hefðir. Af því tilefni var haldið málþing um sundlaugamenningu í fyrirlestrasal Eddu laugardaginn 28. október.
Haldin voru stutt erindi um sund og sundmenningu Íslendinga auk kynningar á bókinni Sund eftir þjóðfræðingana Valdimar Tr. Hafstein og Katrínu Snorradóttur sem kemur út hjá Forlaginu í nóvember.
Hér gefur að líta nokkrar myndir frá málþinginu. Myndirnar tók Kristín Bogadóttir.