Skip to main content

Fréttir

Morkinskinna og Sigurður Jórsalafari í fylgd Ármanns í kvöld


Þriðja og síðasta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á vormisseri 2011 verður haldið fimmtudaginn 28. apríl, kl. 20 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3 að loknum aðalfundi félagsins. Á rannsóknarkvöldinu flytur Ármann Jakobsson, íslenskufræðingur, fyrirlestur sem hann nefnir Oflátungur á erlendri grundu: Jórsalaferð Sigurðar konungs sem sjónarspil. Erindið er haldið í tilefni af útgáfu Hins íslenzka fornritafélags á Morkinskinnu og er helgað einum mikilvægasta viðburði sem frá er greint í ritinu: krossferð Sigurðar konungs Magnússonar, en frásögn Morkinskinnu af henni kemur nú á prent í fullri lengd í fyrsta sinn í 180 ár. Ármann mun ræða krossferðina sem „sjónarspil“, leikrænt eðli hennar og hvernig konungurinn setur sig á svið nálægt erlendum konungum sem mun ríkari og voldugri en hann er í raun og veru.

Ármann Jakobsson er dr.phil. í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og er dósent í íslensku við sama skóla. Hann hefur skrifað bækur og greinar um íslenskar miðaldabókmenntir og gefið út Morkinskinnu ásamt Þórði Inga Guðjónssyni.

Allir eru velkomnir.