Út er komin Morkinskinna í ritröðinni Íslenzk fornrit (tvö bindi). Morkinskinna er mikið konungasagnarit frá fyrri hluta 13. aldar og greinir frá þeim konungum sem ríktu í Noregi eftir fall Ólafs helga á Stiklarstöðum árið 1030. Um er að ræða elsta rit þar sem saga margra konunga er rakin ítarlega. Ein höfuðprýði Morkinskinnu eru hinar mörgu frásagnir af samskiptum konunga við Íslendinga sem dveljast í Noregi, hinir svokölluðu Íslendinga þættir. Þá eru í Morkinskinnu fleiri vísur en í nokkru öðru fornu íslensku sagnariti, og setja þær og hin íslensku skáld mikinn svip á verkið. Morkinskinna er hér í fyrsta sinn gerð aðgengileg íslenskum almenningi, með ítarlegum formála og skýringum. Skrár, kort og myndir prýða verkið. Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson sáu um útgáfuna.