Orðabókavefurinn m.is hlaut silfurverðlaun Félags íslenskra teiknara (FÍT) í tveimur flokkum, annars vegar í flokknum Grafísk miðlun og upplýsingahönnun og hins vegar í flokknum Vefsíður.
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir flokkinn Grafísk miðlun og upplýsingahönnun segir: „Snyrtilegt og nokkuð látlaust útlit. Pappírsliturinn er skemmtilegur og skapar hugrenningatengsl við orðabók sem hæfir verkefninu vel. Góð týpógrafía, traustvekjandi síða og notendavæn síða, án óþarfa upplýsinga.“
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir flokkinn Vefsíður segir: „Þarft og merkilegt verkefni í gagnvirkri miðlun. Skilvirkt og skemmtilega sett fram.“
Hlutverk FÍT-verðlaunanna er að viðurkenna þau verk sem skara fram úr á Íslandi í grafískri hönnun og myndlýsingum. Í ár bárust 428 innsendingar í 17 flokkum og 79 verk voru tilnefnd til FÍT-verðlaunanna 2025.