Skip to main content

Fréttir

M.is fékk silfurverðlaun FÍT

Skjár síma sýnir orðabókasíðu. Þrjú tungumál eru í boði á síðunni - íslenska, enska og pólska. Fyrir miðjum skjá er bendilstrik fyrir framan setninguna "skrifaðu orð". Neðst á myndinni stendur "FÍT verðlaunin 2025 - Silfurverðlaun".
FÍT

Orðabókavefurinn m.is hlaut silfurverðlaun Félags íslenskra teiknara (FÍT) í tveimur flokkum, annars vegar í flokknum Grafísk miðlun og upplýsingahönnun og hins vegar í flokknum Vefsíður.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir flokkinn Grafísk miðlun og upplýsingahönnun segir: „Snyrtilegt og nokkuð látlaust útlit. Pappírsliturinn er skemmtilegur og skapar hugrenningatengsl við orðabók sem hæfir verkefninu vel. Góð týpógrafía, traustvekjandi síða og notendavæn síða, án óþarfa upplýsinga.“

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir flokkinn Vefsíður segir: „Þarft og merkilegt verkefni í gagnvirkri miðlun. Skilvirkt og skemmtilega sett fram.“

Hlutverk FÍT-verðlaunanna er að viðurkenna þau verk sem skara fram úr á Íslandi í grafískri hönnun og myndlýsingum. Í ár bárust 428 innsendingar í 17 flokkum og 79 verk voru tilnefnd til FÍT-verðlaunanna 2025.

Á vefsíðu FÍT má sjá yfirlit yfir verðlaunahafa.