Skip to main content

Fréttir

Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson

Snorralaug í Reykholti. Mynd: Kristín M. Jóhannsdóttir.

Snorrastofa í Reykholti býður upp á árlegan minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson á dánardegi hans þriðjudaginn 23. september nk. í bókhlöðunni kl. 20.30. Gestur kvöldsins verður Torfi H. Tulinius, prófessor í miðaldafræðum við Háskóla Íslands, og mun hann flytja fyrirlestur með yfirskriftinni „Limlestingar á líkama og sál. Um samband ofbeldis og sagnalistar í Íslendingasögu og Njálu.“

Torfi mun leita svara við því, hvort samband sé á milli þess að mesta blómaskeið miðaldabókmennta á Íslandi hafi líka verið tími grimmustu átaka Íslandssögunnar og að samtímamenn höfunda Eglu, Laxdælu og Njálu áttu í heiftarlegum átökum þar sem margir týndu lífinu og enn fleiri urðu fyrir margs kyns áföllum. 

Í tilefni af því að átta hundruð ár eru liðin frá fæðingu Sturlu sagnaritara Þórðarsonar og í framhaldi af nýlega endurvaktri umræðu um að Sturla kynni að hafa samið Brennu-Njáls sögu, verður leitast við að bera saman hvernig ofbeldi, einkum afleiðingum þess, er lýst í Íslendingasögu Sturlu og Njálu. Sams konar skilningur á áhrifum áfalla á sálarlífið virðist vera til staðar í báðum sögunum. Verður þetta rökstutt með dæmum og rætt með hliðsjón af kenningum nútímasálarfræði um ofbeldi og áhrif þess á sálina.

Boðið er upp á dagskrána í samvinnu við Miðaldastofu Háskóla Íslands og er hún styrkt af Menningarráði Vesturlands. Í kjölfar fyrirlesturs Torfa verða umræður og kaffiveitingar og eru allir hjartanlega velkomnir. Aðgangur er 500 kr.

 

Snorrastofa í Reykholti og Miðaldastofa Háskóla Íslands
snorrastofa.is — miðaldastofa.hi.is