Skip to main content

Fréttir

Miðaldastofa: Strengleikar 6. nóvember

Næstkomandi fimmtudag (6. nóvember) verður önnur málstofa vetrarins á vegum miðaldastofu. Álfdís Þorleifsdóttir, meistaranemi í íslenskum bókmenntum, ræðir um strengleika.

Strengleikar er heiti á safni norskra þýðinga frá 13. öld. Um eru að ræða þýðingar á tuttugu og einni franskri ljóðsögu (fr. lais) í prósa. Meira en helmingur ljóðsagnanna er vitað að séu eftir skáldkonu sem var uppi á 12. öld og kallaði sig Marie de France. Fátt er vitað um hana fyrir utan það sem hún segir sjálf í formála sínum sem fylgir ljóðsögum hennar. Sá formáli er einnig hafður með en í norsku þýðingunni er hann heldur styttri en í frönsku gerðinni. Þar segist Marie hafa unnið ljóðsögur sínar upp úr ljóðum sem hún hafi heyrt í Bretlandi en erfitt er að vita í hversu miklum mæli það hafi verið því lítið af þeim hefur varðveist. Hins vegar má lesa það úr Strengleikunum að Marie de France hafi einnig verið vel að sér bæði í klassískum textum og biblíutextum sem og öðrum kirkjulegum ritum og má víða finna óbeina vísun í þau verk. Ljóðsögur Marie de France eru að mörgu leyti ólíkar hvað varðar efnistök og úrvinnslu. Þær hafa það hins vegar allar sameiginlegt að fjalla um ástina að einhverju leyti.

Í fyrirlestrinum verða bornir saman tveir strengleikar, annars vegar Laustiks ljóð og hins vegar Jónet. Þó að sögurnar hafi ýmis sameiginleg minni eru efnistök mjög ólík, m.a. hvað varðar afstöðu til ástarinnar. Þetta verður rakið ásamt ýmsum textatengslum sem þær bera vitni um.

Málstofan er haldin í stofu 311, Árnagarði, og hefst kl. 16:30. Léttar veitingar seldar á kostnaðarverði.