Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal er nú komið út á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í tveimur bindum. Hér er um að ræða stórmerka frumheimild fyrir íslenskar ættfræðirannsóknir. Ættartölusafnritið er samtíðarheimild um ættir, afkomendur og búsetu fjölda Íslendinga á fyrri hluta 17. aldar. Af því spruttu yngri gerðir auknar efni um nýjar kynslóðir og frá þessum ritum er runnin ómæld þekking í prentuð ættfræðirit á nútíma.
Í fyrra bindi birtist fyrsta heildarútgáfa á Ættartölusafnriti sr. Þórðar og í seinna bindi er nafnaskrá textaútgáfunnar ásamt ritgerð eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur sem er frumrannsókn á uppruna, efni og tengslum helstu ættartöluhandrita síðari alda og bókiðju séra Þórðar í Hítardal, en hann er kunnastur fyrir Landnámugerð sína, Þórðarbók Landnámu.
Ættartölusafnritið er 1012 blaðsíður, bundið í harðspjöld og kápu. Útgáfuna annaðist Guðrún Ása Grímsdóttir. Smásöluverð bindanna beggja er kr. 12.900. Bókin er til sölu í bókaverslunum.
ISBN I–II: 978-9979-654-02-5
I: 978-9979-654-03-2
II: 978-9979-654-04-9