Skip to main content

Fréttir

Menningarviðburður um íslenskar bókmenntir og tónlist

Fimmtudaginn 19. nóvember stóð Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt íslenskukennurum við erlenda háskóla fyrir menningardagskrá á netinu. Á milli klukkan 14 og 16 að íslenskum tíma heimsóttu fjórir rithöfundar og þrír tónlistarmenn íslenskunema víðs vegar um heiminn á Zoom-samskiptaforritinu og spjölluðu á ensku við Brynhildi Björnsdóttur, menningarfræðing og söngkonu.

Rithöfundarnir lásu á íslensku úr verkum sínum og myndbönd með tónlistarfólkinu voru sýnd. Jónas Reynir Gunnarsson reið á vaðið og las úr nýjustu skáldsögu sinni, Dauði skógar. Í kjölfarið rappaði Herra Hnetusmjör 100 mismunandi vegu áður en Elísabet Kristín Jökulsdóttir las úr Aprílsólarkulda. Páll Óskar mætti svo og söng lögin Minn hinsti dans og International. Þórdís Gísladóttir las úr unglingabókinni Hingað og ekki lengra sem hún skrifaði í samstarfi við Hildi Knútsdóttur og Hera Björk söng Vegir liggja til allra átta við undirleik Björns Thoroddsens. Loks las Guðjón Ragnar Jónasson úr bók sinni og Aðalsteins Eyþórssonar, Kindasögur II. Brynhildur lauk svo dagskránni með því að syngja Það er tími enn eftir Braga Valdimar Skúlason við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Íslenskunemarnir, sem eru frá ýmsum löndum Evrópu, auk Kína og Kanada, höfðu fyrir fram fengið texta með efninu sem flutt var og gátu því undirbúið sig. Um 130 manns tóku þátt í viðburðinum þegar flest var, en dagskráin var tekin upp og allir íslenskukennarar við erlenda háskóla fengu aðgang að upptökunum og geta því haldið áfram að nota efnið í kennslu.

Dagskráin tókst ljómandi vel og við vonumst til að geta staðið fyrir fleiri svipuðum viðburðum á næsta ári.