Skip to main content

Fréttir

Meðferð handrita og flutningur til Þýskalands


Á næstu dögum verða átta handrit flutt til Þýskalands á sýningu Gabríelu Friðriksdóttur myndlistarmanns í tilefni Bókasýningar í Frankfurt þar sem Ísland er heiðursgestur.

Í Kastljósi í Sjónvarpinu þann 19. september var ágæt umfjöllun um sýninguna og flutning handritanna. Nokkur viðbrögð hafa orðið við þættinum. Margir hafa glaðst yfir verðmætum handrita og fyrirhugaðri sýningu en sumir undrast meðferð skinnhandrita sem mynduð voru, þá sérstaklega að menn meðhöndluðu þau án þess að nota hanska.

Viðhorf til þess hvort nota beri hanska þegar skinnhandrit eru meðhöndluð hafa breyst í tímans rás. Hafa þarf í huga að hanskar bera, engu síður en mannshöndin, með sér efni sem geta verið óæskileg fyrir handritin, svo sem þvottaefni og bleikiefni. Það er því að yfirlögðu ráði sem sérfræðingar hafa lagt af hanskanotkun. Það var forvörður stofnunarinnar sem fletti handritunum fyrir sjónvarpsvélarnar og gætti þar fyllstu varúðar; hann fletti bókunum rösklega en af fullkomnu öryggi og með vitneskju um ástand þeirra. Starfsmenn stofnunarinnar kappkosta nú sem fyrr að umgangast handritin af varfærni og virðingu.

Á heimasíðu RÚV má sjá umfjöllun Kastljóss: