Skip to main content

Fréttir

Marianne E. Kalinke hlýtur heiðursdoktorsnafnbót

Marianne E. Kalinke hlýtur heiðursdoktorsnafnbót á sviði hugvísinda við Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag, 1. desember, kl. 15:00.

Marianne er prófessor emerita við Illinoisháskóla í Urbana og Champaign. Hennar helsta rannsóknarsvið eru menningarleg tengsl milli Norðurlanda og meginlands Evrópu og hún hefur lagt mikinn skerf fram til eins vanræktasta sviðs íslenskrar miðaldabókmennta, þ.e. þýðinga á riddarasögum og helgisögum. Hún hefur ritað og ritstýrt fjölda bóka á sviði norrænna miðaldabókmennta.  Hún hefur margoft setið í dómnefndum og unnið önnur störf fyrir Háskóla Íslands auk þess sem hún hefur verið nánast árviss gestur á Árnastofnun áratugum saman. Hjá Marianne Kalinke fara saman mikil og einlæg vinátta við Ísland og Íslendinga, sérstök ræktarsemi við Háskóla Íslands, öguð og vönduð fræðimennska og nýsköpun á fræðasviðinu.