Skip to main content

Fréttir

Margrét Valmundsdóttir: Gerð spálíkans

Þjóðminjasafn Íslands. Mynd í eigu Þjóðminjasafnsins.

 

Margrét Valmundsdóttir verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum flytur erindi í Þjóðminjasafninu 9. apríl kl. 12.05 sem nefnist: Gerð spálíkans fyrir staðsetningu járnvinnslustaða í Fnjóskadal. Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni: Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði á vegum Félags fornleifafræðinga. Í erindinu verður sagt frá verkefni sem miðar að því að búa til spálíkan sem ætlað er að segja til um staðsetningu á óþekktum járnvinnslustöðum í Fnjóskadal. Landfræðileg gögn verða notuð til þess að meta þá umhverfisþætti sem einkenna þekkta járnvinnslustaði í dalnum og þau síðan stöðluð og raðað eftir mikilvægi þeirra hvað varðar áhrif á staðarval. Gögnin eru síðan lögð saman og spálíkanið unnið í landfræðilegu upplýsingakerfi.

Í Fnjóskadal eru flestir járnvinnslustaðanna þekktir út frá rituðum heimildum. Sumarið 2011 leiddi uppgröftur á vegum Byggðasafns Skagfirðinga í ljós leifar umfangsmikillar járnvinnslu sem rekja mátti allt aftur til 11. aldar. Engar heimildir voru þekktar um þá járnvinnslu og engin merki hennar mátti sjá á yfirborði. Ætlunin með gerð spálíkansins er þess vegna að athuga hvort líkanið leiði í ljós staðsetningar á öðrum óþekktum járnvinnslustöðum.