Skip to main content

Fréttir

Margir styrkir til Árnastofnunar

Starfsmenn og verkefni á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa hlotið veglega styrki á síðustu vikum.

Martin Adams

Einn stærsti styrkurinn sem stofnuninni barst var frá Nordplus Sprog-áætluninni. Norræna veforðabókin ISLEX fékk styrk að upphæð 79 þúsund evrur (sem jafngildir 12,5 milljónum íslenskra króna) til að stækka orðabókina um 10%. 
Ritstjóri ISLEX-orðabókarinnar er Þórdís Úlfarsdóttir og verkefnisstjóri Halldóra Jónsdóttir.

Verkefni um söfnun samtímaheimilda um laufabrauðshefðir, sem unnið er í samstarfi við vefinn lifandihefdir.is, hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Styrkurinn felst í þriggja mánaða launum fyrir nemanda (900 þúsund). Umsjónarmaður verkefnisins er Vilhelmína Jónsdóttir.

Nafnfræðisvið hlaut 2,5 milljóna króna styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur fyrir vinnu við skráningu örnefnagagna á Nafnið.is. Umsjónarmenn verkefnisins eru Emily Lethbridge og Aðalsteinn Hákonarson.

LEXÍA, íslensk-frönsk og íslensk-þýsk orðabók á vefnum, sem unnin er og gefin út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlaut einnar milljónar króna styrk einnig úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Orðabókin er byggð á veforðabókinni ISLEX (www.islex.is), sem er margmála orðabók milli íslensku og sex norrænna mála. Í orðabókunum eru kostir rafrænnar miðlunar látnir njóta sín, orðabókin er studd myndefni og framburður allra íslensku uppflettiorðanna er lesinn upp sem hljóð. LEXÍA er verk í vinnslu og er franski hluti hennar mjög langt kominn og er þegar opinn til uppflettinga (lexia.arnastofnun.is).

Að lokum má nefna styrk sem fékkst úr Sasakawa-sjóðnum (Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation) fyrir sumarnámskeið í íslensku fyrir japanska nemendur. Verkefnið snýst um að efla tengsl Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands (sér í lagi Mála- og menningardeildar) við valda háskóla í Japan sem bjóða annars vegar upp á nám í íslensku fyrir japanska nemendur og hins vegar nám í japönsku máli og menningu fyrir erlenda nemendur. Styrkupphæð var 30.000 SEK eða rúmlega 400 þúsund íslenskar krónur.