Skip to main content

Fréttir

Málþing um Sigurð Guðmundsson málara


Laugardaginn 17. mars kl. 10 hefst málþing í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands um Sigurð Guðmundsson málara og menningarsköpun á Íslandi 1857-1874. Málþingið er hluti af verkefninu „Menningarsköpun: Fræðilegir áhrifavaldar, uppsprettur innblástrar og langtímaáhrif menningarsköpunar Sigurðar málara og Kvöldfélagsmanna 1857‐1874.“

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Verkefnið, undir forsjá Terry Gunnell, þjóðfræðiprófessors við HÍ, er þriggja ára þverfagleg rannsókn styrkt af Rannís og er fyrsta starfsárinu nú nýlokið. Á málþinginu verða kynntar hinar ýmsu hliðar verkefnisins og fyrstu niðurstöður, en meginmarkmið fyrsta árins var að kanna tíðaranda tímabilsins,  hugmyndafræðilegan bakgrunn Sigurðar málara og samstarfsfólks hans, sem og ástand mála á hinum mörgu sviðum þar sem þau  létu að sér kveða.  Því mun farið um víðan völl og fjallað um orðræðu, fræðilegar aðferðir, akademískt líf í Kaupmannahöfn, þjóðlega húsagerðarlist, þjóðlegan klæðnað, leikhúsfræði, þjóðsagnasöfnun og að lokum Kvöldfélagið sjálft.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Háskóla Íslands, Landsbókasafn/Háskólabókasafn, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafnið og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni sigurdurmalari.hi.is.