Skip to main content

Fréttir

Málþing um ævi og störf Stefáns Einarssonar 9. júní

Stefán Einarsson. Mynd fengin af vef Breiðdalsseturs: http://www.breiddalssetur.is/index.php/is/stefan-einarsson-og-malvisindi.

 

Málþing um ævi og störf Stefáns Einarssonar
í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðu laugardag 9. júní kl. 13

Dagskrá:

  1. Smári Ólason setur málþingið og rekur helstu æviatriði Stefáns Einarssonar.
  2. Vésteinn Ólason: Bókmenntarannsóknir Stefáns Einarssonar.
  3. Svavar Sigmundsson: Málfræðistörf Stefáns Einarssonar og örnefnasöfnun hans á Austurlandi
  4. Smári Ólason: Hljóðupptökur Stefáns Einarssonar úr Breiðdal.

Gestum er bent á að kostur er að skoða sýningu um Stefán Einarsson í anddyri Þjóðarbókhlöðu á undan eða eftir málþinginu.

Stefán Einarsson fæddist að Höskuldsstöðum í Breiðdal 9. júní 1897. Hann lauk meistaraprófí í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands  og síðan doktorsprófi  í málvísindum frá Óslólarháskóla 1927. Stefán hóf störf við John Hopkins háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum árið 1928 og starfaði þar til starfsloka 1962, lengst af sem prófessor. Hann flutti þá heim til Íslands þar sem hann lést áratug síðar. Þekktustu verk Stefáns eru kennslubók í íslensku, Icelandic. Grammar, Texts, Glossary, og saga íslenskra bókmennta frá upphafi til nútímans, sem birtist fyrst á ensku og síðan aukin í íslenskri þýðingu.

Stefán var geysiafkastamikill fræðimaður og birti bækur og greinar um íslenkst mál, bókmenntir og menningarsögu. Hann safnaði örnefnum og þjóðfræðum í heimasveit sinni og fleiri stöðum á Austfjörðum. Stefán var aðalristjóri byggðasögunnar Breiðdælu sem kom út 1948 og ritaði um Austfirði í árbókum Ferðafélagsins.

Breiðdalssetur er sjálfseignarstofnun sem hefur aðsetur í  ríflega aldargömlu verslunarhúsi á Breiðdalsvík. Setrinu er m.a. ætlað að halda á loft minningu Stefáns Einarssonar og breska jarðvísindamannsins George Walker sem stundaði  rannsóknir í Breiðdal og víðar og gerði uppgötvanir sem byltu jarðsögu Íslands og enn halda gildi. Í húsinu eru herbergi helguð þessum mönnum, þar eru geymdir munir sem tengjast þeim og komnir eru frá fjölskyldum þeirra, m.a. mikið magn rannsóknargagna frá George Walker.
Fyrir einu ári var haldið málþing um Stefán Einarsson í Breiðdalssetri og opnuð þar sýning um ævi hans og störf. Sýningin hefur nú verið sett upp í Þjóðarbókhlöðu og var opnuð 24. apríl s.l.