Skip to main content

Fréttir

Máltæknisetur fær rúmlega 30 milljóna styrk


Verkefnið META-NORD hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu að upphæð 2.250 þúsund evrur (tæpar 344 milljónir íslenskra króna). Megintilgangur verkefnisins er að skapa tæknilegar forsendur fyrir margmála upplýsingasamfélagi í Evrópu þar sem allir geti notað móðurmál sitt við öflun og úrvinnslu hvers kyns upplýsinga.

Norðurlöndin og Eystrarsaltslöndin standa að verkefninu en máltæknifyrirtækið Tilde í Riga í Lettlandi leiðir verkefnið sem hefst 1. febrúar 2011 og stendur í tvö ár. Aðrir þátttakendur eru háskólarnir í Kaupmannahöfn, Bergen, Gautaborg, Helsinki, Tartu og Vilnius, auk Máltækniseturs sem er stofa innan Málvísindastofnunar Háskólans rekin í samstarfi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Stjórnandi íslenska hlutans er Eiríkur Rögnvaldsson prófessor, en verkið verður unnið í nánum tengslum við Árnastofnun. Hlutur Máltækniseturs af styrknum er um 202 þúsund evrur, tæplega 31 milljón íslenskra króna.