Skip to main content

Fréttir

Ljóðmæli séra Einars í Eydölum (1539-1626) komin út

Komin eru út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Ljóðmæli séra Einars Sigurðssonar (1539-1626) sem jafnan er kenndur við Eydali (Heydali) í Breiðdal en þar var hann prestur frá 1590 til dánadægurs. Jón Samsonarson og Kristján Eiríksson bjuggu Ljóðmælin til prentunar.

Bókin skiptist í þrjá hluta og er alls 320 bls.

  • Inngangur fjallar um sálmakveðskap í lútherskum sið og ævi Einars í Eydölum.
  • Þá tekur við kveðskapur Einars, alls 45 sálmar og kvæði.
  • Í síðasta hluta, Skýringum og athugasemdum, er gerð rækileg grein fyrir einstökum sálmum og kvæðum og varðveislu þeirra.

Bókinni fylgja heimildaskrá, handritaskrá og nafnaskrá.

Einar Sigurðsson var höfuðskáld þjóðarinnar í árdaga lúthersks siðar hér á landi og í miklum metum hjá Guðbrandi biskupi Þorlákssyni sem sést af því að megnið af fyrri hluta Vísnabókar, þeirrar sem biskup gaf út á Hólum 1612, er eftir séra Einar. Þar birtust m.a. fimm jólakvæði eftir hann og var eitt þeirra, jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein“ með viðlaginu ljúfa: „Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.“ Kvæðið var tekið að hluta til upp í sálmabók árið 1945 eða nokkru eftir að Sigvaldi Kaldalóns samdi lagið sem sálmurinn er sunginn við árið 1940. Í Vísnabókinni nefnist sálmurinn „Kvæði af stallinum Kristí, sem kallast Vöggukvæði“ og er alls 28 erindi auk viðlags, en aðeins sjö þeirra eru tekin upp í sálmabók Þjóðkirkjunnar.

Mikið hefur skort á að höfundarverk Einars hafi verið aðgengilegt almenningi. Heita má að allur skáldskapur hans annar en sá sem birtist í Vísnabókinni 1612 hafi legið óbirtur í handritum og Vísnabókin sjálf hefur verið fágæt. Úr þessu hefur nú verið bætt, annars vegar með endurútgáfu Vísnabókar með nútímastafsetningu á vegum Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2000 og hins vegar þessari útgáfu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Ljóðmælum Einars þar sem birtur er allur annar þekktur kveðskapur hans auk úrvals ljóða sem prentuð eru í Vísnabók, þar á meðal er Kvæði af stallinum Kristí. Þar með er allt sem vitað er um að Einar hafi kveðið komið á prent í þeim búningi sem hentar nútímafólki.

Háskólaútgáfa annast dreifingu bókarinnar og er viðmiðunarverð hennar 5.600 kr.