Skip to main content

Fréttir

Lektoraráðstefna í Vilníus í Litháen

Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis, sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, gengst fyrir ráðstefnu við háskólann í Vilníus í Litháen fyrir kennara í Norðurlandafræðum í Austur- og Suðaustur-Evrópu dagana 10. – 12. nóvember nk. Þátttakendur verða um 100 og koma víða að. Á ráðstefnunni verða flutt erindi um norrænt samstarf, tungumálastefnu og stefnu í umhverfismálum, kennslu tungumála á Netinu og norræna bókmenntasögu.

Í tengslum við ráðstefnuna heldur samstarfsnefndin haustfund sinn þar sem m.a. verða vettir styrkir til verkefna sem kennarar í Norðurlandamálum við erlenda háskóla standa að og til sérstakra verkefna til að efla kennslu í Norðurlandafræðum í Norður-Ameríku.

Hlutverk nefndarinnar er að efla kennslu í Norðurlandamálum erlendis og styðja menningarkynningu og upplýsingamiðlun, sem norrænir sendikennarar og erlendir samstarfsmenn þeirra sinna við háskólastofnanir í norrænum málum og bókmenntum, bæði innan og utan Norðurlanda. Formaður nefnarinnar er Marjut Vehkanen, yfirmaður þeirrar deildar CIMO í Helsinki sem annast umsjón með finnskukennslu erlendis. Skrifstofa nefndarinnar er á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslensku fræðum.