Fimmtudaginn 23. september var Lars Lönnroth, prófessor emeritus við Gautaborgarháskóla, veitt heiðursdoktorsnafnbót við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Lars Lönnroth er einn af áhrifameiri fræðimönnum á sviði íslenskra miðaldabókmennta síðustu áratugi. Rannsóknir hans á tilurð og umhverfi fornsagna á tólftu og þrettándu öld eru grundvöllur margra yngri rannsókna og hafa fleytt hugmyndum fram, ekki síst hafa athuganir hans á mörkum bókmenntagreina verið áhrifaríkar. Þá má segja að bók hans um Njáls sögu frá 1976, Njáls saga: A critical introduction, hafi valdið straumhvörfum í Njálurannsóknum og er enn í fullu gildi. Eftir hann liggur auk þess fjöldi fræðilegra greina sem ná vítt og breitt um heim íslenskra miðaldabókmennta. Hann er auk þess mikilvirkur þýðandi íslenskra bókmennta á sænsku, má sem dæmi nefna vandaðar þýðingar Njálu, Laxdælu, eddukvæða og fornaldarsagna.
Hægt er að hlusta á viðtal við Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur um Lars á Hugvarpi (hlaðvarpi Hugvísindasviðs).