Skip to main content

Fréttir

Landnámsjörð, aðalból og kirkjustaður í Vatnsfirði við Djúp

Hannesarholt við Grundarstíg 10.

 

Þriðja rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á vormisseri 2013 verður haldið miðvikudaginn 20. mars kl. 20 í Hannesarholti, Grundarstíg 10, 101 Reykjavík. Þar mun Guðrún Ása Grímsdóttir halda erindið 'Landnámsjörð, aðalból og kirkjustaður í Vatnsfirði við Djúp' en nýleg bók Guðrúnar fjallar um hinn víðfræga sögustað Vatnsfjörð frá upphafi byggðar til okkar daga. Guðrún lýsir erindinu á þessa leið:

Vatnsfjörður í Ísafirði er ein víðlendasta landnámsjörð á Vestfjörðum. Þar var aðalból Vatnsfirðinga í 400 ár, en í upphafi 16. aldar sló Skálholtbiskup hendi yfir Vatnsfjörð og síðan hafa setið þar um það bil þrjátíu prestar, flestir prófastar. Í erindinu verður getið um nokkra þætti í ævisögu Vatnsfjarðar eftir bókinni Vatnsfjörður í Ísafirði sem kom út haustið 2012 og sagt verður frá tilurð bókarinnar og heimildaleit.

Guðrún Ása Grímsdóttir er rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hefur hún samið ótalmörg fræðirit og greinar. Nánari upplýsingar um bók Guðrúnar um Vatnsfjörð má finna á heimasíðu Vestfirska forlagsins.