Skip to main content

Fréttir

Lagt inn í nýyrðabankann daglega

Nýyrðabanki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (nyyrdi.arnastofnun.is) er vettvangur þar sem hægt að senda inn nýyrði. Bankinn hefur staðið almenningi opinn í rúman mánuð og gefur öllum kærkomið tækifæri til að leggja mat sitt á innsend nýyrði með því að gefa þeim „þumal upp“ eða „þumal niður“. Einnig má skrifa athugasemdir við nýyrði, s.s. að nefna dæmi um notkun nýyrðis eða að ræða mismunandi skýringar.

Nýyrðavefurinn mun stækka eftir því sem fleiri nýyrði eru send inn. Frá því að nýyrðavefurinn var opnaður á degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl. hafa bæst við 250–300 nýyrði.

Hægt er að skoða innsend nýyrði á vefnum og jafnframt velja efnisflokka, t.d. mat, umhverfi og daglegt líf. Með stækkunarglerinu, sem sést neðarlega á nýyrðavefnum, er hægt að leita eftir nýyrðinu sjálfu eða erlendri samsvörun. Sem dæmi má nefna að með leitarorðinu „vape“ finnast íslensku nýyrðin dampa, eima, feykja, gufa og súlda sem allt eru innsendar tillögur fyrir að reykja rafrettur.