Í nýju sérhefti af tímaritinu Women's Writing eru greinar um konur og trú á Norðurlöndunum frá ýmsum sjónarhornum. Í ritinu fjallar:
- Anne Mette Hansen um danska bænabók frá því um siðaskipti.
- Natalie van Deusen um kvæði af heilögum meyjum í íslenskum handritum.
- Katelin Parsons um kvæði af heilagri Úrsúlu og hvernig það tengist ferðalögum kvenna.
- Svanhildur Óskarsdóttir um handrit með trúarlegum kveðskap ortum handa búðarkonu á Snæfellsnesi.
- Þórunn Sigurðardóttir um eitt af fyrstu trúarlegu kvæðunum sem vitað er að íslensk kona hafi ort.
- Vigdis Berland Øystese um norsku skáldkonuna Ingeborg Grotten (f. 1668).
Gestaritstjórar eru Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor á Árnastofnun, og Anna Bohlin, prófessor í Bergen.
Greinarnar eru allar aðgengilegar á heimasíðu tímaritsins.
Annað hefti árið 2026
Þetta er fyrra heftið af tveimur. Seinna heftið kemur út í byrjun næsta árs og þar verða greinar um kvennabaráttu, trúmál og trúarlegan kveðskap, einkum í Finnlandi og Svíþjóð – en líka á Íslandi því að þar birtir Guðrún Ingólfsdóttir grein um Kristínu Guðmundsdóttur (1859–1901), líf hennar og skáldskap.
Mynd á kápu tímaritsins
Myndin tengist grein eftir Þórunni Sigurðardóttur en hún fjallar um kvæði eftir Helgu Jónsdóttur sem er á myndinni ásamt seinni eiginmanni sínum, Þorsteini Geirssyni.
Í heftinu er fjallað dálítið um hlutverk prestkonunnar en því fylgdi ákveðið vald og tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Myndin er birt með leyfi Þjóðminjasafns Íslands.