Skip to main content

Fréttir

Könnun á óskum fræðimanna um aðgengi að handritasöfnum

Vinna stendur nú yfir við Enrich-verkefnið svonefnda:

Enrich er samstarfsverkefni 18 evrópskra stofnana og fyrirtækja um gerð sameiginlegrar evrópskrar vefgáttar sem opnaði aðgengi að handritasöfnum í menningarstofnunum vítt og breitt um Evrópu.  Verkefnið er styrkt af eContent+ áætlun Evrópusambandsins. Meðal þátttakenda í verkefninu eru Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafn Íslands – Háskóla bókasafn og Árnasafn í Kaupmannahöfn.

Könnun
Sá hópur innan verkefnisins, sem vinnur að því að þróa viðmót gáttarinnar gagnvart notendum og þá möguleika sem notendum verða boðnir til þess að hagnýta sér gögnin sem aðgangur verður veittur að, hefur nú efnt til könnunar meðal væntanlegra notenda. Í könnuninni er m.a. spurt hvort notendur telji gagnlegt að eiga kost á því vegna rannsókna sinna að viða að sér gögnum héðan og þaðan úr safnkostinum og safna þeim saman í einstaklingsbundin sýndarsöfn, sem væru þeim aðgengileg meðan rannsóknir þeirra stæðu yfir og jafnvel einnig síðar við nýjar rannsóknir. Könnunin byggist á 23 spurningum og er yfirleitt gefinn kostur á 5 mismunandi svarmöguleikum við hverja þeirra. Það tekur ekki lengri tíma en 5-10 mínútur að svara könnuninni. Slóðin er opin til 31. maí:

Áður en könnuninni er svarað væri ef til vill góð hugmynd að líta á vefsíðu sem er á vef tékknesku þjóðbókahlöðunnar og geymir myndir af mörgum dýrgripum í því bókasafni og öðrum:

Það eru vinsamleg tilmæli okkar sem vinnum að þessu verkefni hjá Árnastofnun og Landsbókasafni að þeir sem sjá þetta bréf skoði þessa könnun og svari henni.