Katelin Parsons flytur erindið Kóngurinn drekkur kryddað vín: Tvö íslensk matreiðslukver frá 17. öld á rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræða 30. janúar kl. 20. Athygli er vakin á breyttri staðsetningu. Rannsóknarkvöldið verður í Hannesarholti, Grundarstíg 10.
Sautjánda öldin er ekki almennt talin blómaskeið íslenskrar matargerðar, enda fyrst og fremst tengd við súrkál. Hér verður þó enginn þorramatur á boðstólum heldur ljúffeng veisla að dönskum sið: tvö matreiðslukver frá seinni hluta 17. aldar sem færa Íslendingum spennandi nýjungar á borð við hveitibrauðsúpu og ferskt lambakjöt í saffrankrydduðu vínsoði.
Matreiðslukverin tvö hafa lengi legið í gleymsku, að hluta til vegna þess hve efnið hlaut litla athygli þegar skráning þeirra fór fyrst fram. En hvernig heimildir eru þessi uppskriftasöfn og hvað segja þau okkur um matarmenningu Íslendinga á 17. öld? Eru þau til vitnis um bjartsýni og tilraunamennsku í eldhúsinu, þrá ákveðinna stétta til þess að færa mataræðið í áttina að því sem þekkist hjá heldri mönnum í Norður-Evrópu – eða hreina og eintóma vitfirringu?
Katelin Parsons er þýðandi og doktorsnemi í íslenskum bók- menntum við HÍ. Hún lauk MA-prófi í þýðingafræðum frá sama skóla árið 2010.