Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður með kynningu á Vísindavöku 2010 föstudaginn 24. september undir heitinu: Íslensk fræði - nýsköpun og miðlun.
Þetta árið fá gestir að spreyta sig við skriftir með fjaðurstaf á kálfskinnsbút með nýsoðnu bleki, soðnu úr sortulitunarlegi (sortulyngi og sortu) og víðileggjum.
En hvað er sorta? Svarið er í orðabankanum, ordabanki.hi.is, sem verður kynntur á vökunni. Í bankanum eru fræðiheiti og nýyrði sem hefur verið safnað úr ýmsum greinum og sameinuð þannig að ekki séu á kreiki mörg heiti um sama fyrirbærið.
Litljósprent af hinu merka handriti Skarðsbók Jónsbókar verður til sýnis. Jónsbók var lögbók Íslendinga öldum saman og geysimikið lesin og notuð. Skarðsbók mun þykja veglegust Jónsbókarhandrita og er handritið fagurlega myndskreytt.
Gestir geta fræðst um handrit á fræðsluvefnum www.handritinheima.is sem er yfirgripsmikil vefsíða um íslensk miðaldahandrit og menningarsögu.
Fræðimenn undir hatti Máltækniseturs verða í nábýli við stofnunina en þeir gefa gestum kost á að leita á mjög „vitrænan“ hátt í margvíslegum textum sem og prófa nýtt þýðingarkerfi og meta gæði þess.
Gestum á kynningu stofnunarinnar verður boðið upp á nýsteiktar kleinur handritafræðingsins. Uppskriftin er á vefnum Handritin heima.
Vísindavakan verður haldin föstudaginn 24. september í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu kl. 17-22.