Skip to main content

Fréttir

Júdít og Makkabear: Fornar biblíuþýðingar gefnar út

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur gefið út fyrstu tvö heftin í nýrri ritröð sem nefnist Fornar biblíuþýðingar. Henni er ætlað að koma á framfæri gömlum íslenskum biblíutextum sem hafa ekki birst í heildarútgáfum Biblíunnar á íslensku. 

Heftin tvö geyma annars vegar Júdítarbók í þýðingu frá um 1300 og hins vegar Makkabeabækur í þýðingu frá síðari hluta sextándu aldar. Þessar þýðingar eru hvor með sínu móti. Júdít er þýdd úr latínu á mál sem svipar til íslenskra fornsagna og er tiltölulega auðskilið nútímalesendum. Makkabear eru aftur á móti þýddir úr dönsku og draga í mörgu dám af því, orðfærið er oft framandi en jafnframt bragðmikið. Textarnir tveir eru merkar heimildir um þróun íslensks máls og frjó áhrif þýðinga. Útgáfan er því fengur fyrir áhugafólk um íslenska málsögu, þýðingar og viðtökur Biblíunnar á Íslandi en líka fyrir þá sem hafa gaman af að lesa dálítið óvenjulega íslensku.

Í útgáfunni eru textar þýðinganna prentaðir með nútímastafsetningu lesendum til hægðarauka og þeim fylgir inngangur og nafnaskrá. Svanhildur Óskarsdóttir og Karl Óskar Ólafsson sáu um útgáfuna.

Nánar um verkin

Júdít

Júdítarbók segir frá Júdít, fallegri ekkju sem vinnur hetjudáð með því að höggva höfuðið af hershöfðingjanum Hólófernesi. Júdít varð fyrirmynd, ekki aðeins að því er hreinlífi varðar heldur einnig fyrir hugrekki sitt og visku, og margir listamenn hafa gert átökum þeirra Hólófernesar skil í aldanna rás.

Sýnishorn úr textanum:

Um aftaninn síð fóru menn til svefns og byrgði Vagau, þjónustumaður Holofernis, svefntjald hans og fór á braut, og voru allir menn móðir af víndrykkju en Judith var ein eftir hjá Holoferne og eskimær hennar. En er Holofernis lá sofnaður í rekkju sinni, ákaflega drukkinn, þá mælti Judith við þjónustumey sína að hún stæði við dyr tjaldsins og varðveitti þau. En Judith stóð fyrir rekkju hans og bað með tárum og mælti hljótt: „Styrktu mig, drottinn guð Gyðinga, og líttu á þessari tíð kraft handa minna. Og svo sem þú hést fyrir að hefja upp og efla Jerúsalem, borg þína, láttu mig algera það er eg hefi ætlað og trúað að þú mundir verða láta.“ En er hún hafði þetta mælt, þá gekk hún til og brá sverði hans sjálfs, því er hékk á stólpanum yfir höfði honum, og greip í hár honum og mælti: „Styrktu mig, drottinn guð Gyðinga, á þessari tíð!“ Hún hjó þá tvisvar á háls honum áður af gekk höfuðið. Síðan tók hún hjúp hans hinn dýra en velti bolnum úr rekkjunni á jörð. Eftir það gengur hún út og seldi höfuðið ambátt sinni og bað hana láta í skreppu sína.

 

Makkabear

Makkabeabækur draga nafn sitt af frelsishetju Gyðinga, Júdasi Makkabeusi, og bræðrum hans sem stofnuðu eins konar andspyrnuhreyfingu gegn Antíokkusi IV. Epífanesi sem á annarri öld f.Kr. sat á veldisstóli Selevkída og ríkti yfir löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Með baráttu sinni tókst Gyðingum að endurheimta yfirráð yfir musterinu í Jerúsalem og stofna ríki í Júdeu.

Sýnishorn úr textanum:

Og sem Judas og hans bræður sáu nú og fornumu að ofsóknir og áhlaup Gyðinga vildu megnast en ekki minnkast og að þeirra óvinir voru komnir með sinn her að þeirra landamerkjum, og spurðu að kóngurinn hafði bífalað þessum að eyðileggja með öllu Gyðingakyn, þá voru þeir þó frímóðugir og án alls ugga og ótta og samtóku sig með allri tryggð að þeir vildu út setja sitt líf til frelsis og friðar sínu fólki og hraustliga stríða fyrir þá heilögu. Og því samankölluðu þeir sitt stríðsfólk að þeir skyldu halda til samans og taka til vara nær best færi sæist svo þeir mættu falla yfir sína óvini og þeir allir skyldu biðja hvör með öðrum um hjálp og fullting af guði. En á þessum tíma var Jerúsalem eyði svo að enginn borgari bjó þar, hvorki meiri háttar né minni, og helgidómurinn var svívirtur og saurgaður með þann afguð sem þar var inn fæddur og heiðingjarnir höfðu slotið inntekið og allri fegurð og prýði var svipt frá Juda svo að Ísraelssona heyrðist hvorki hörpur né pípur eða nokkur annar hljóðfærasöngur.