Skip to main content

Fréttir

Íslenskuvænt samfélag: Málstofa á Ísafirði

Loftmynd af hluta Ísafjarðar. Horft inn fjörðinn með fjöll í baksýn.
Af vef Háskólaseturs Vestfjarða

Föstudaginn 23. september hélt Branislav Bédi, verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fyrirlestur um tól og tæki sem aðstoða við kennslu í íslensku sem öðru máli og þar á meðal vefnámskeiðið Icelandic Online  sem er notað í tengslum við sumarskóla í íslenskri tungu og menningu, sem stofnunin skipuleggur árlega í samstarfi við Háskóla Íslands. Sumarskólann sækja erlendir nemendur sem koma til landsins til að læra íslensku og fræðast um íslenskt samfélag.

Fyrirlesturinn var haldinn í tengslum við átakið Íslenskuvænt samfélag – Við erum öll almannakennarar sem Háskólasetur Vestfjarða, í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Ísafjarðarbæ, kom á laggirnar sl. vor. Markmiðið með átakinu er tvíþætt, annars vegar að aðstoða þá sem eru að læra íslenska tungu og vilja auka færni sína í að nota hana í íslensku samfélagi og hins vegar að ná til þeirra sem tala íslensku reiprennandi og þjálfa með þeim þolinmæði gagnvart þeim sem kunna lítið í málinu en vilja nota það í samskiptum við aðra. Átakið hófst í maí og stendur yfir til nóvemberloka. Frekari upplýsingar um átakið má finna á heimasíðu Háskólasetursins.